Oportó á sýningu HRFÍ

Þá er Oportó búinn að fara á sína fyrstu sýningu á Íslandi. Honum gekk mjög vel, var valinn Besti hundur tegundar (BOB) og hlaut Íslenskt meistarastig (CAC) og Alþjóðlegt meistarastig (CACIB) Dómari nefndi sérstaklega hvað henni þætti gaman
að sjá svo vöðvamikla Vizslu og hvað hann hefði indælt skap.
Oportó fékk mjög góða dóma en dómari var Jean Lanning frá Bretlandi.

Has the type and quality. Well balanced with good bone and substance.
Strong firm sound mover. Could be tighter in elbow but generally pleasing.
Excellent, BOB, CAC, CACIB

 

Æfingar

Í sumar höfum við Fífa sótt nokkrar æfingar á vegum Vorsteh klúbbs, Fuglahundadeildar og Írsk setter deildar. Það hefur verið mjög lærdómsríkt og frábært að fá leiðsögn frá okkar færustu fuglahundamönnum. Oportó kom með á æfingu daginn eftir að hann kom úr einangrun og sýndi frábæra vinnu við að rekja blóðspor. Allir eru velkomnir og hægt er að nálgast upplýsingar á Facebooksíðu Vorsteh klúbbsins. Nokkrar myndir frá æfingunum eru í myndabankanum og eru þær teknar af Pétri Alan Guðmundssyni og Svafari Ragnarssyni.

Oportó líður vel

Nú eru liðnir nokkrir dagar síðan Oportó kom heim úr einangrun og er skemmst frá því að segja að honum hefur gengið afskaplega vel að aðlagast lífinu hérna hjá okkur. Þessi hundur er mikill höfðingi, einstaklega ljúfur og með yndislega skapgerð.  Hann og Fífa eru orðnir miklir vinir og er gaman að sjá hvað þau passa vel saman. Við gætum ekki verið ánægðari með nýja fjölskyldumeðliminn.

Oportó kominn heim

Þá er Oportó kominn til landsins og dvelur nú í einangrun. Við áttum þrjá daga með honum úti og er hann í einu orði sagt frábær persónuleiki. Hann er mjög rólegur og yfirvegaður, ótrúlega blíður og mannelskur. Ég er algerlega heilluð af honum og get varla beðið eftir að tíminn líði þar til hann kemur heim til okkar. Við sóttum hann til Ungverjalands, fórum með þjálfara hans út fyrir bæinn þar sem við fengum að sjá hann í vatnavinnu og við leit að útlagðri bráð. Þá vinnu vann hann mjög vel. Í vettvangsleit hélt hann sig nærri enda bauð umhverfið ekki upp á annað. Þegar gengið er um skóga og akra í Ungverjalandi er auðvelt að sjá hvers vegna það er einn af höfuð kostum Vizslunni að vinna nærri og í nánu sambandi við eigandann.
Oportó dvaldi síðan með okkur í Vín þar sem hann var eins og heimsborgari, fór í göngutúra um borgina og á fína veitingastaði. Alls staðar var hann velkominn enda til fyrirmyndar hvar sem hann kom. Við flugum síðan með hann heim frá Þýskalandi.

Nokkrar myndir frá ferðinni er að finna í myndabanka.

Ganga og sýning

Við Fífa skelltum okkur í Vizslugöngu og nokkrar myndir
frá göngunni eru komnar inn á myndabankann.

Úrslit júní sýningar HRFÍ voru eftirfarandi:

Stormur, Unghundaflokkur, Excellent
Eigandi: Einar Sveinsson
Snilld, Unghundaflokkur, Excellent
Eigandi: Guðmundur H Guðmundsson
Tara, Opinn flokkur, Excellent, BT-1, BHT-1, BIG-4 M.efni, Ísl.mstig
Eigandi: Ólafur V Halldórsson
 

Glæsilegur árangur

Oportó var sýndur í Ungverjalandi 16. maí og fékk frábæra dóma. Hann hlaut Ungverskt meistarastig, varð Besti hundur tegundar (BOB), Besti hundur í tegundahópi 7(BOG) og var valinn  Þriðji Besti hundur sýningar ! (BIS3).   Dómari var Dr. Vácziné Balogh Zsuzsa frá Ungverjalandi.

Elegant appearance, good proportions, beautiful Hungarian Vizsla male. Typical head, skull, muzzle could be slightly more, beautiful eye color, excellent under- and over line. Energetic, good movements.

Ég er auðvitað alveg í skýjunum yfir þessum frábæra árangri, ákaflega montin og stolt af stáknum.

 

 

Oportó með CAC og CACIB

Oportó var sýndur á Alþjóðlegri hundasýningu í Maribor í Slóveníu
laugardaginn 17. Apríl s.l.   Þar hlaut hann Slóvenískt og Alþjóðlegt meistarastig.
Dómari var Tatjana Urek frá Slóveníu.

Correct dog with good proportions, correct head, good neck and throat, excellent under- and over lines of body, good breast, good angles and good quality of coat.

Frábært hjá stráknum okkar sem er væntanlegur heim í júní.

 

Vadászfai Oportó

Vadászfai Oportó heitir nýji rakkinn okkar sem væntanlegur er heim í sumar. Ég er afar þakklát ræktanda hans Katalin Varga fyrir að hafa boðið okkur Oportó sem hún hafði hugsað sér að eiga sjálf og nota í sinni ræktun. Ég veit að þessi ákvörðun var henni ekki auðveld. Oportó verður sýndur í Ungverjalandi í apríl og maí. Hann hefur verið þjálfaður í veiði og stefnt er að veiðiprófi í Ungverjalandi áður en hann kemur heim til Íslands. Hann hefur verið mjaðmamyndaður með niðurstöður A/B. Oportó mun án efa bæta Vizslustofninn á Íslandi enda fyrir löngu orðið tímabært að fá nýtt blóð í stofninn.

Smellið á myndina til að stækka

Væntanleg pörun

Gangi allt upp verða Oportó og Fífa pöruð næsta vetur.
Ég vil biðja þá sem hafa áhuga á að eignast hvolp undan Fífu og Oportó endilega að hafa samband. Hvolparnir munu ekki fara hvert sem er og þarf fólk að vera tilbúið að svara nokkrum spurningum áður en eitthvað er ákveðið. Margir ræktendur erlendis para ekki fyrr en fullvíst er að hvolpana bíði góð heimili og finnst mér það ágæt regla. Þess vegna er gott að auglýsa væntanlega pörun snemma svo hægt sé að gera sér grein fyrir hvort áhugi sé fyrir hendi.    

Netfangið mitt er: hildur@vizsla.is og símanúmer: 698-7430
 

ISShCh Jarðar Fífa

Fífa er íslenskur sýningameistari.

Til að hljóta titilinn íslenskur sýningameistari þarf hundur að hafa hlotið
þrjú íslensk meistarastig á þremur sýningum HRFÍ hjá þremur mismunandi
dómurum og eitt af þeim eftir 24 mánaða aldur. 

Grein um ræktun

Ég birti hér fróðlega grein um ræktun Ungversku Vizslunnar. Greinin er eftir Katalin vinkonu mína í Svíðþjóð.  Katalin er frá Ungverjalandi og hefur átt Vizslur frá barnsaldri. Henni er mjög umhugað um velferð Vizslunnar og hefur sterkar skoðanir þegar kemur að ræktun hennar. Góð lesning fyrir alla Vizslueigendur ekki síst þá sem hafa hugsað sér að fara út í ræktun sem gengur út á svo miklu meira en að leyfa tíkinni að eignast hvolpa eins og það er orðað.

Sækja grein