Hvolparnir mánaða gamlir

Tíminn líður alltof hratt og nú eru hvolparnir orðnir mánaða gamlir. Þeir eru fluttir í stofuna þar sem þeir hafa gott pláss til að ærslast. Þeir eru farnir að borða graut sem þeim finnst algert lostæti og í leiðinni æfum við innkall á flautu. Hvolparnir eru líka að æfa sig í að sofa í búri sem var frekar auðvelt þar sem þeir kusu þann svefnstað sjálfir. Þetta verða vonandi tónelskir hvolpar því leikið er fyrir þá á píanó og trompet nær daglega. Þeim finnst skemmtilegt að fá krakka í heimsókn og að fá knús og klapp.  Allt þetta og svo ótal margt annað er liður í að umhverfisþjálfa hvolpana og gera þá betur undirbúna fyrir lífið.

Hvolpafréttir

Hvolparnir þroskast hratt þessa dagana. Nú eru allir búnir að opna augun og farnir að labba og þess ekki langt að bíða að þeir reyni að príla upp úr gotkassanum. Fífa sinnir þeim vel og er farin að leyfa Oportó að vera með þeim líka. Það er hrein unun að fylgjast með hvolpunum breytast dag frá degi og alltaf eitthvað nýtt og spennandi að gerast.  Það er virkilega gaman að finna hvað margir eru áhugasamir um hvolpana og vilja fylgjast með.  Takk allir fyrir hamingjuóskirnar og áhugann.  Kærar þakkir til allra sem hafa hjálpað og leiðbeint okkur, algerlega ómetanlegt að
eiga góða að.

Nokkrar nýjar myndir eru í myndabankanum undir Hvolpar.

Hvolparnir fæddir

Yndislegir, fríðir og sprækir Ungverskir Vizsluhvolpar eru komnir í heiminn. Fjórar tíkur og tveir rakkar. Fífa stóð sig eins og hetja í löngu fæðingaferli. Fífa hefur alltaf fengið mikla hreyfingu og verið í flottu formi sem bersýnilega skilar sér við aðstæður sem þessar.
Hvolparnir fæddust stórir og myndarlegir. Það verður gaman að fylgjast með þeim vaxa og dafna næstu daga og vikur. Við fengum frábæra aðstoð við gotið frá reyndum schafer ræktanda hérna í Garðinum. Þökkum við Sjönu okkar hjá Ice Tindra ræktun kærlega fyrir alla hjálpina sem var alveg ómetanleg. Fífa er góð mamma og sinnir hvolpunum sínum vel en sá eini sem hún leyfir ekki að koma nærri hvolpunum er aumingja pabbinn hann Oportó.

Myndir af hvolpunum komnar í myndabankann.
 

C.I.E. ISShCh Jarðar Fífa

Fífa er orðin Alþjóðlegur sýningameistari. Staðfesting þess efnis barst frá FCI á dögunum.
Fífa er enn sem komið er eina Vizslan á Íslandi sem hlotið hefur Alþjóðlegan sýningameistaratitil.
Til að verða Alþjóðlegur sýningameistari þarf hundur að hljóta fjögur Alþjóðleg meistarastig
(CACIB) á fjórum alþjóðlegum sýningum frá dómurum af a.m.k. þremur þjóðernum frá
FCI aðildarlöndum. Að minnsta kosti eitt ár verður að líða frá því að hundur fær sitt fyrsta stig og
til þess fjórða.

Smellið á myndina til að stækka.

Hvolpar í febrúar

Við höfum fengið það staðfest að Fífa á von á hvolpum um miðjan febrúar.
Í sónarskoðun komu í ljós nokkur kríli og lítur allt vel út.
Fífa er hraust enda hefur hún alltaf verið í góðu formi þó núorðið hafi hún
verulega hægt á hlaupunum í heiðinni enda komin á seinni mánuð meðgöngunnar.

Við bíðum spennt eftir að tíminn líði og vonandi á allt eftir að ganga vel í fæðingunni.

 

 

Fífa og Oportó hafa verið pöruð

Þá hafa Fífa og Oportó verið pöruð og ef allt hefur gengið að óskum eru væntanlegir hvolpar um miðjan febrúar. Það er von okkar að vel hafi til tekist enda ekki um neina skyndiákvörðun að ræða heldur vandlega hugsað got þar sem við höfum notið leiðsagnar reyndra Vizsluræktenda erlendis. Þeir sem hafa áhuga á að komast á biðlista fyrir þetta got geta haft samband í síma 698-7430 eða í netfangið hildur@vizsla.is Eingöngu fólk með góða aðstöðu og einlægan áhuga fyrir tegundinni koma til greina.

Smellið á myndina til að stækka.

Í heiðinni

Því miður hefur verið lítið um fugl í heiðinni hérna hjá okkur undanfarið. Á síðustu æfingu fórum við með frosna rjúpu með okkur í heiðina og æfðum hundana í leit og sókn. Við lögðum rjúpuna út þannig að hundarnir þurftu að finna hana og sækja. Þau eru bæði mjög góð í þessu og þessar æfingar eru eitthvað það skemmtilegasta sem þau gera. Nokkrar myndir frá æfingunni eru í myndabankanum.

Einnig er að finna nokkrar myndir frá því fyrr í vetur þegar að þó nokkuð var um fugl í heiðinni. Fífa er fljót að finna rjúpuna sé hún til staðar og hefur það hjálpað okkur mikið við að æfa Oportó í að finna og kynnast lyktinni af rjúpunni.

Smellið á myndina til að stækka.
 

Hunting ability test for Vizslas in Hungary

Ég birti hérna til gamans reglur fyrir veiðipróf (VAV) fyrir Ungverskar Vizslur í Ungverjalandi.
Það er gaman að lesa hvaða kröfur eru gerðar til Vizslunnar í heimalandinu.
Í prófinu eru undirstöðuatriði góðs veiðihunds metin. Sjá próf hér.

Prófið er þýtt af Katalin Poor.

Myndin hér til hliðar er af Remek pabba Oportós.

 

Væntanlegt got

Ef allt gengur að óskum áætlum við að vera með Vizsluhvolpa snemma árs 2011.
Ef fólk hefur áhuga á hvolpi úr þessu goti þarf það að svara nokkrum laufléttum spurningum
áður en eitthvað er ákveðið. Við erum nú þegar komin með nokkur nöfn á biðlista, fólk sem hefur kynnt sér tegundina mjög vel og við trúum að verði frábærir Vizslueigendur.

Upplýsingar um Fífu og Oportó má finna hérna á síðunni auk þess sem fólki er velkomið að hafa samband í netfangið hildur@vizsla.is eða í síma 698-7430

Ef fólk hefur áhuga á að koma til greina á biðlista fyrir þetta got þá endilega hafið samband.

Jarðar Vizslur

Þrjár Vizslur hafa hlotið Íslenska sýningameistaratitilinn.
Þetta eru Jarðar Tara Melódía, Jarðar Fífa og Jarðar Bassi.
Frábærir hundar sem eru tegundinni til sóma.
Ræktendur þeirra eru Erla Sigríður Jónsdóttir og Emil Emilsson.

Til að hljóta titilinn Íslenskur sýningameistari þarf hundur að hafa hlotið
þrjú íslensk meistarastig á þremur sýningum HRFÍ hjá þremur mismundandi
dómurum og eitt af þeim eftir 24 mánaða aldur.