Holtabergs Atlas 2011 - 2016

13. ágúst 2016
Holtabergs Atlas er fallinn frá aðeins 5 ára gamall, en hann greindist nýverið með eitlakrabbamein.  Atlas kom fyrstur í heiminn í sex hvolpa goti Fífu og Oportós. Við vorum fljót að sjá að þarna var á ferðinni ákaflega fallegur hvolpur með yndislegt geðslag.  Atlas fékk bestu eigendur sem hægt var að óska sér, en það voru þau Gunnlaugur Már Briem og Ísabella dóttir hans.   Atlas var ekki bara fallegur, hann tók þátt í sækiprófi fyrir fuglahunda og hlaut þar 2. einkunn, en aðeins tvær vizslur á Íslandi hafa hlotið einkunnir á viðurkenndum prófum fyrir fuglahunda. Það var gaman að fylgjast með þeim Atlasi og Gulla þegar að þeir voru að æfa undir prófið, þá sá maður svo vel vináttuna og virðinguna sem þeir höfðu hvor fyrir öðrum. Við sendum Gulla og Ísabellu okkar innilegustu samúðarkveðjur,  Atlas er sárt saknað. Við fengum leyfi til að birta hérna færslu sem Gulli setti inn á facebooksíðu sína ásamt nokkrum myndum af Atlasi með fjölskyldu sinni, en þær eru að finna í myndabanka.

"Við Ísabella kvöddum nýlega þennan góða vin okkar eftir alltof stutt veikindi. Hann var einn af fjölskyldunni og fáir viðburðir síðustu ár sem hann deildi ekki með okkur, hvort sem það voru ferðalög, gönguferðir eða bara að horfa á barnatímann upp í sófa um helgar. Það er magnað hvað góður vinur getur gefið manni mikið, og skiptir þá litlu hvort maður deili tungumáli eða fótleggjafjölda. Söknum þessa ljúflings og vinar, og óhætt að segja að það er tómlegra án hans hér á heimilinu."