Mikið lán að fá fósturmömmu eins og Amöndu

AmandaMunaðarlausu hvolparnir hennar Stemmu, sem dó nóttina sem þeir komu í heiminn, eru orðnir tvö kíló og farnir að borða og drekka sjálfir. Springer-tíkin Amanda hefur verið þeim eins og móðir, mjólkað þeim vel og hugsað um þá af kostgæfni. Erla Jónsdóttir, eigandi hvolpanna, segir að það sé kraftaverki líkast að allir skyldu lifa og þrífast eins vel og raun ber vitni.

Mikið lán að fá fósturmömmu eins og Amöndu

"Uppeldi hvolpanna hjá Springer-tíkinni hefur gengið alveg ótrúlega vel, en þeir eru orðnir heil tvö kíló og stækka með hverjum deginum" segir Erla. Amanda, Springer spaniel-tíkin úr Borgarfirðinum, sem átti hvolpana og missti sömu nótt og munaðarlausu hvolparnir komu í heiminn, hugsar vel um fjörkálfana sem eru nokkuð stærri en hennar eigin hvolpar væru, hefðu þeir lifað. Erla segir hún hugsi um þá rétt eins og hún hefði fætt þá alla af sér. "Hún er alveg ótrúleg þessi tík og mikið lán að hafa fengið hana. Umburðarlyndi hennar er viðbrugðið og hún hefur mjólkað þeim vel og hugsað um þá af mikilli alúð. Í byrjun var hún með flesta hvolpana heima hjá sér en við sáum fljótt að best væri að allt stóðið og Amanda yrðu hjá okkur svo ég gæti hugsað um þau öll" sagði hún Hvolparnir verða mánaðar gamlir þann 24. júní og hafa allir braggast vel. Tveir voru aðeins á eftir og þurftu að fá hvolpamjólk úr pela nokkrum sinnum á sólarhring. Nú eru hvolparnir hins vegar orðnir svo stórir að þeir eru farnir að borða sjálfir hvolpagraut og lepja mjólk af skál. Það er mikill léttir fyrir Erlu sem er ekki eins önnum kafin og fyrstu vikurnar.

"Ég hef lengstum verið með allt stóðið uppi í svefnherbergi við hliðina á mér á næturnar en nú erum við "tíkurnar" og hvolparnir komin niður í kjallara," segir Erla hlægjandi, en hún sefur niðri hjá þeim á næturnar til öryggis. Erla segir að Amanda hafi hugsað mjög vel um fósturbörnin sín, þvegið þeim, og fætt en nú er hún að byrja að aga og ala liðið dálítið upp." "Það er gaman að fylgjast með því, en hún tekur þá dálítið öðrum tökum en Stemma gerði með fyrra gotið sitt. Hún var harðari við þá en Amanda sem er svo ljúf og góð tekur þá mýkri tökum. Hvolpunum hefur ekki öllum verið fundið heimili, en Erla óttast ekki að það verði vandi. "Það er mikil eftirspurn eftir svona hundum. Vizslan er alveg einstök hundategund, en í þeim er sækir, bendir og kelir," segir Elra og á þá við að Vizslan sé afskaplega kelin og mikið fyrir klappið.

Amanda verður áfram hjá Erlu en hún er farin að bíta þá undan sér og liggur ekki lengur hjá þeim á næturnar. "Þeir fá að sjúga við og við hjá henni en þeir eru orðnir ansi aðgangsharðir. Nú tekur við hjá henni uppeldið og það er afskaplega gaman að fylgjast með því. Pabbinn Bragur vill hins vegar ekkert taka þátt í neinu slíku og heldur sig til hlés. Kannski hann sé bara sannur karlmaður," segir Erla og skellihlær.

 

Birt með leyfi Bergljótar Davíðsdóttur, blaðamanns.