Munaðarlausir hvolpar á spena hjá fósturmæðrum

SindyTíkin Stemma dó á skurðarborðinu en skildi eftir sig tíu munaðarleysingja. Líf þeirra voru undir því komin að hægt væri að finna fósturmæður. En dauði eins er annars brauð og örfáum stundum síðar voru þeir komnir á spena hjá tíkunum, Amöndu og Sindy sem tóku þessum boltum fagnandi og sjá nú um að næra þá. Erla Jónsdóttir eigandi Stemmu er tíkunum og eigendum þeirra afar þakklát.

"Það var yndislegt að hafa komið hvolpunum á fósturmæður en þeir hefðu ekki átt mikla von á að lifa án þess. Jafnvel þó að við hefðum gert allt til að veita þeim elsku og umhyggju," segir Erla sem syrgir Stemmu sína sárt, en hún lést á skurðarborðinu þegar hvolparnir tíu komu í heiminn. Hvolparnir koma þó ekki í stað Stemmu, sem var af hinu ungverska kyni Vizslu. Allt var gert til að bjarga lífi hennar en án árangurs, hjartað hætti að slá og skildi hún eftir sig tíu smáa og svanga hvolpa. Sex rakka og fjórar tíkur.

Kraftaverki líkast

Erla segist hafa verið svo hamingjusöm með að öll kríkin væru á lífi og ekki var eftir neinu að bíða en að sauma og ganga frá þegar áfallið reið yfir. "Ég ætlaði ekki að trúa því að hún Stemma mín væri farin og við hjónin vorum bæði miður okkar. Það er ekkert til að skammast sín fyrir, en við grétum og ég á örugglega eftir að útdeila fleiri tárum vegna hennar. Þetta var svo óvænt högg að missa hana, en hún kom með okkur til landsins frá Danmörku þegar við fluttum heim þaðan og var tæplega fimm ára gömul;" útskýrir Erla og bætir við að heima bíði Bragur, faðir og sálufélagi Stemmu, ekki síður sorgmæddur að finna hana hvergi.

Erla og Emil höfðu ekki tíma til að leggjast í sorg. Það var lífsspursmál fyrir hvolpana að finna þeim fósturmóður. Dýralæknarnir vissu um einhverjar tíkur sem reynt var að fá til að taka hvolpana að sér en engin þeirra vildi líta við þessum stóru og kröftugu hvolpum. Fyrir klára og hreina tilviljun birtist þá á biðsofu læknanna Karen Kristjánsdóttir með Cavalier-tík sína sem þurfti að taka nokkra sauma úr en heima átti hún sjö vikna gamla hvolpa sem svo gott sem voru hættir á spena. Af gæsku sinni bauðst hún til að reyna að fá Sindy sína til að fóstra að minnsta kosti tvo. "Emil fór heim og settist við tölvuna og freistaði þess að finna einhverjar tíkur sem voru með hvolpa á spena í gegnum spjallrásir og auglýsingar á netinu. Hann skrifaði einnig inn tilkynningu og bað um aðstoð. "Ég fór heim með Karen og þessi yndislega tík hleypti boltunum litlu að sér og leyfði þeim að sjúga," segir Erla og er Karenu afskaplega þakklát fyrir að leggja þessa auka vinnu á sig fyrir munaðarleysingjana litlu.

Bjargvættir í Borgarfirðinum

Amanda"Emil varð nokkuð ágengt og fann konu í Borgarfirðinum sem ræktar Cokker spaniel og hafði samband við hana. Já , svo ótrúlaga sem það hljómar þá hafið Amanda, Springer spaniel-tík, nóttina áður fætt fimm andvana hvolpa og var þess vegna full af mjólk. „Við biðum ekki boðanna og nokkrum klukkustundum eftir að hvolparnir fæddust brunuðum við uppeftir og lögðum þá einn í einu á spena hjá henni. Hún tók þeim hverjum á eftir öðrum eins og hún ætti þá, byrjaði að sleikja þá og hreinsa. Með alla átta lá hún alsæl eins og hún hefði fætt þá sjálf og þeir hömuðust við að sjúga,“ segir Erla þakklát og glöð yfir að hafa komið öllum krílunum sínum á spena innan nokkurra stunda. Síðan eru liðnir nokkrir dagar og allt gekk vel, bæði hvolparnir tveir hjá Sindy og hinir átta í sveitinni hafa þyngst og stækkað en það getur skilið á milli lífs og dauða að hvolparnir fái mjólk og umhyggju hundamömmu. Erla segist ekki nógsamlega getað þakkað eigendum þeirra Amöndu og Sindy, en það muni um hvern dag. Hún er bæði hissa og þakklát fyrir hve margir hundaeigendur hafa haft sambnd við þau og vottað samúð sína og boðist til að aðstoða þau. „Það er smyrsl á sárin að finna þennan hlýhug og samhjálp en hundaeigendur skilja hvað það er mikið áfall að missa hund. Aðrir kunna að gera grín af því hvað við tökum það nærri okkur að missa tíkina en þeir þekkja ekki þá tilfinningu og væntumþykju sem maður ber til hunda sem eru hluti fjölskyldunnar og eins og börnin okkar. Það er líka sárt að fylgjast með Brag, hvernig hann sperrist upp þegar einhver kemur en þá býst hann við Stemmu inn úr dyrunum. Þegar við höfum farið út að ganga eins og við höfum alltaf gert þá verður hann hálf ringlaður. Þau voru vön að koma um leið og þau sáu mig fara í útigallann, svo ekki sé minnst á gleðina þegar þau heyrðu í tauminum. Nú hreyfir hann sig ekki en skimar um allt eftir Stemmu og tekur síðan strikið upp á loft til að ná í hana þegar hún birtist ekki. Ég efa ekki að þetta sé líka erfitt fyrir hann,“ útskýrir Erla.

Sorg og söknuður

Stemma átti hvolpa síðast fyrir tæpu ári og fjölluðum við um það hér á DV. Það kom mörgum á óvart að svo skammt skyldi liða á milli gota hjá henni en vaninn er að hvíla tíkur lengur. Erla segir að það sé von að menn spyrji, það hafi aldrei staðið til að para Stemmu svona snemma. „Hún var búin með eitt lóðarí og þá fór Bragur burt af heimilinu á meðan. Í þetta skiptið lóðaði hún óvenju snemma og við urðum þess ekki vör. Hún hefur hreinsað sig svona vel auk þess sem hann hefur séð um það líka. Hún sýndi heldur enga tilburði í þá áttina en vanalega leynir það sér ekki þegar hún lóðar. Hegðun þeirra beggja verður þannig,“ útskýrir Erla en hún var í mestu rólegheitum með þau saman úti í göngutúr þar sem þau hlupu frjáls. Áður en hún vissi af hafði hann skellt sér á hana og allt stóð fast. Erla segist ekki hafa trúað sínum eigin augum en það var ekkert hægt að gera. Þau fóru sínu fram og það var ekki aftur tekið. Fæðingin hófst svo á tilskildum tíma og allt gekk vel í byrjun. „Eftir tvo fyrstu hvolpanna hætti hún fljótlega að rembast, lagðist niður og fór að sinna þeim. Inni í henni sprikklaði allt og við töluðum við dýralækni. Okkur var sagt að koma strax og Stemma fékk kalk og samdráttarsprautu og fór að rembast aftur en það fór á sama veg. Læknarnri skoðuðu hana vel og sá að það var enginn í fæðingarveginum en töldu að það lægi hvolpur þvert fyrir. Stemma leyfði að vesenast væri í henni og það var greinilegt að hún var í „Barnsnauð“ og skynjaði klárlega að hún þyrfti að fá hjálp. Við horfðum síðan á eftir henni þessari elsku inn í skurðstofuna og biðum frammi tilbúin að taka við hvolpunum,“ segir Erla sem vissulega var smeyk við keisarann en honum fylgir alltaf áhætta. „Ég bað þess að allt gengi vel en líf Stemmu og heilsa var það sem skipti máli. Dýralæknarnir vita ekki nákvæma dánarorsök en báðu um að fá að kryfja hana. Þá kannski finnst hvað var að,“ bætir hún við og segir að þau syrgi hana sárt en að litlu krílin sem hún dó fyrir leiði hugann frá Stemmu um sinn. Erla bendir á að got sé alltaf áhætta, fram hjá því sé ekki horft. „En svona er lífið og við verðum að taka þessu. En allir heimsins hvolpar fylla ekki skarðið sem Stemma skildi eftir sig en það breytir því ekki að við munum gera allt sem í okkar valdi stendur að koma þeim á legg og eru ákaflega þakklát fyrir þessa einstöku hjálp sem okkur barst frá tíkunum og mæðrum þeirra.

Birt með leyfi Bergljótar Davíðsdóttur blaðamanns.