Tegundin

myndUngversk Vizsla

Heimaland: Ungverjaland

Tegundahópur: 7  Standandi fuglahundar

Stærð: Rakki: 58-64 cm á herðakamb, tík 54-60 cm.

Vizslan er líflegur og tryggur hundur sem myndar sterk bönd við fjölskyldu sína. Hún þarf að vera ein af fjölskyldunni frá fyrsta degi.  Vizslan er ákaflega barngóð og hefur ótrúlega þolinmæði gagnvart börnum.  Henni semur vel við aðra hunda og önnur gæludýr.

Vizslan er námsfús og auðvelt er að kenna henni. Henni hefur gengið vel í hlýðni og fimi en fyrst og fremst er hún alhliða veiðihundur sem bendir og sækir. Á veiðislóð er henni ætlað að vinna nærri eiganda. Vizslan er glæsilegur sýningarhundur og hér á landi hefur henni gengið mjög vel á sýningum HRFÍ.

Vizslan er orkumikill hundur sem þarf góða daglega hreyfingu. Hún er hreinleg og hárlos er í meðallagi.

Vizslan er mjög gamalt  hundakyn og hafa teikningar varðveist frá árinu 1357 þar sem sjá má Vizslur fylgja mönnum til veiða.

Í kjölfar síðari heimsstyrjaldar var Vizslan næstum útdauð í heimalandinu. Ungverjar óttuðust að Rússar myndu útrýma Vizslunni þar sem hún var tákn „aristókrata“ Nokkrum hundum var smyglað til Austurríkis, Bandaríkjanna og annarra landa og tókst þannig að bjarga kyninu. Nú á síðustu árum hefur Vizslan verið í mikilli sókn og á sífellt auknum vinsældum að fagna víða um heim.

Ræktunarmarkmið fyrir Ungverska vizslu: http://magyarvizslaklub.hu/admin/spaw2/uploads/files/pdf/Hungarian%20Viz...